Starfsskýrsla Blakdeildar Aftureldingar fyrir árið 2023
Bikarkeppni BLÍ; Kjörísbikarinn fór fram í mars 2023 og var spilað í Digranesi í glæsilegri umgjörð. Karlaliðið komst í FINAL 4 þar sem þeir drógust á móti Hamar og töpuðu þeir þeim leik.
Kvennaliðið okkar tapaði óvænt fyrir Völsung í 8 liða úrslitunum og komst því ekki í FINAL4 helgina.
Í Íslandsmótinu 2022-2023 fóru bæði liðin okkar í undanúrslitakeppnina um Íslandsmeistaratitilinn. Karlaliðið endaði í 4. sæti í deildinni og kvennaliðið fór alla leið í úrslitakeppnina og háði úrslitaeinvígið við KA sem varð æsispennandi. Einvígið fór í 5 leiki og var úrslitaleikurinn sýndur beint á RUV sem var nýung og vonandi komið til að vera. Sá leikur fór jafnframt í odd og endaði á að KA stúlkur unnu oddahrinuna 15-12 og urðu því Íslandsmeistarar 2023.
Eins og undanfarin ár þá var Afturelding með mörg lið skráð í Íslandsmóti Blaksambands Íslands en alls er spilað í 4 karladeildum og 8 kvennadeildum og eru deildir 2-6 spilaðar í þremur helgarmótum. Blakdeild Aftureldingar sá um helgarmót 2 sem haldið var í janúar 2023 og voru það lið í 3.5. og 6.deild kvenna sem spiluðu að Varmá. Meistaraflokkarnir sáu um dómgæslu og veitingasölu og tókst það mjög vel og var þetta gríðarlega mikilvæg fjáröflun fyrir meistaraflokkana okkar.
Blakhóparnir sem æfðu undir merkjum Aftureldingar á leiktíðinni 2022-2023 voru eftirfarandi:
Meistaraflokkur karla: Tefldi fram liði í Úrvalsdeild (síðar UNBROKEN deild) karla.
Meistaraflokkur kvenna: Tefldu fram liði í Úrvalsdeild kvenna. (síðar UNBROKEN deild)
Meistaraflokkur kvenna: 2-4 deild: 4 lið sem æfa og keppa í Íslandsmótum BLÍ.
Afturelding C eða Steve Öxl er karlahópur sem spilar í 3.deild karla á Íslandsmóti BLI.
Til viðbótar eru svo iðkendur í BUR að sjálfsögðu og voru 3 unglingalið sem kepptu í Íslandsmóti fullorðinna. Stúlknaliðið Afturelding B, sem spilaði í 1.deild kvenna og karla og sem B lið þannig að þeir iðkendur sem þar eru er hægt að taka upp í meistaraflokkinn og þannig fá þeir iðkendur að vera á bekknum þar en fá spilatíma í 1.deildinni. Markmiðið með B liði er að það er svokallað “developing” lið og sem hjálpar leikmönnum sem eru að koma úr meðslum að fá spilatíma án þess að þurfa að fara beint inní leik með úrvalsdeildinni.
Auk þess kepptu þessir yngri iðkendur á mótum í sínum aldursflokkum.
Einnig hefur BUR verið með unglingalið sem spilar í 5.deild kvenna og er það frábær vettvangur fyrir unga leikmenn til að fá leikreynslu.
Starfið:
Það eru flestir sammála því að afreksstarf er nauðsynlegt innan íþróttafélaga og að það hvetur yngri iðkendur til dáða og fyrir þá sem stefna hærra þá er það nauðsynlegt.
Eins og komið hefur fram þá heldur Blakdeildin úti starfi fyrir marga aldurshópa á mörgum mismunandi getustigum hvað fullorðna snertir. Boðið er upp á fullorðinshópa sem keppa í Íslandsmótum á vegum Blaksambands Íslands sem og þá sem eru eingöngu æfa sér til skemmtunar og blandast þessir hópar saman gjarnan og því getustigið mismunandi í hópunum.
Í 3 ár hefur nú verið starfrækt svokallað Neðri deildar ráð og í haust var öllum kvennahópunum steypt saman og ráðnir 3 þjálfarar til að þjálfa allan hópinn.
Flaggskip Blakdeildarinnar eru meistaraflokkarnir okkar sem spila í úrvalsdeildum karla og kvenna og eru það fyrirmyndir ungu iðkendanna okkar og liggur það í hlutarins eðli að þær deildir eru dýrastar í rekstri og því leggjum við mikla áherslu á að finna stuðningsaðila til að auðvelda þann rekstur en rekstarstyrkur Mosfellsbæjar er mikil búbót í því verkefni og skipta sköpum í því að halda úti metnaðarfullu starfi þar.
Fjárhagslegt umhverfi:
Fjárhagslega þá hefur oftast verið mjög erfitt fyrir blakíþróttina.
Erfitt er að fá fyrirtæki til að styrkja starfið, enda lítið um að fjölmiðlar fjalli um þessa íþrótt. FINAL4 helgin í Bikarkeppni BLI er mjög mikilvæg fyrir meistaraflokkana okkar. Með því að komast í úrslitaleikina, skapasti möguleikinn til að selja auglýsingar til fyrirtækja því um beinar útsendingar á RUV er að ræða frá úrslitaleikjunum og hefur það mikið gildi greinilega.
Þess utan þá eru helstu fjáraflanir deildarinnar æfingabúðir og mótahald sem félagið fær úthlutað og hafa haldið deildinni á floti fjárhagslega allt frá fyrsta Öldungamótinu sem deildin hélt í maí árið 2002.
Stór fjáröflun kom upp í hendur Blakdeildarinnar á síðasta ári við tökur á sjónvarpsþáttunum Aftureldingu sem var sýnd við góðan orðstýr. Annað stórt verkefni kom frá Sorpu þar sem meistaraflokksleikmenn fóru og hreinsuðu rusl á svæði Sorpu við Álfsnes og var það nýtt upp í æfingaferð sem farin var til Spánar s.l. haust.
Íþróttaskóli barnanna er önnur fjáröflunarleið kom upp í hendurnar á blakdeildinni í haust þegar ljóst var að Svava Ýr ætlaði að hætt með íþróttaskóla barnanna. Meistaraflokksráð tók þessa fjáröflun og var Valal ráðin yfir verkefnið. Meistarflokkarnir aðstoðuðu við að setja upp skólann á föstudögum eftir síðustu æfinguna og í byrjun þá aðstoðuðu þau í tímunum. Þetta er fjáröflun sem er ákaflega mikilvæg fyrir meistaraflokkana og sem vonandi helst áfram innan blakdeildarinnar.
Tindahlaupið er stór þáttur í fjáröflun meistaraflokkanna fyrir veturinn og fer fram á bæjarhátíðinni Í Túninu heima í lok ágúst ár hvert. Tindahlaupið 2023 fór fram úr björtustu vonum okkar skipuleggjandanna og fjölgaði hlaupurum mjög mikið. Þetta er frábær fjáröflun fyrir meistaraflokkana okkar og gengur samstarfið við Björgunarsveitina og Mosfellsbæ sem er leitt af Birgi Konráðssyni mjög vel.
Áramót Blakdeildar Aftureldingar sem haldið hefur verið á Gamlársdag var svo haldið og fylltist það fljótt.
BUR – Barna- og Unglingastarfið
Iðkenda fjöldi BUR hélst svipaður tímabilið 2022-2023 en um haustið 2023 var farið í
auglýsingar þar sem boðið var upp á fríar prufur út september til að reyna að fjölga krökkum í blakinu. Helst skilaði aukning sér í stelpuhópnum í U14 en þeim fjölgaði úr 8 í 16.
Þó þurftum við að slaufa æfingum í U10 seinnihluta árs 2023 þar sem þeir iðkendur sem
voru í U10 fluttust upp í U12 og náðum við ekki neinum nýjum iðkendum inn i U10.
Það er smá áhyggjuefni hversu fáir strákar eru að skila sér inn í flokkana hjá okkur en við þyrftum að ná inn 10 strákum til að geta verið með lið í t.d. U14/16 þar sem okkar strákar sem eru í U20 er farið að vanta inn stráka til að koma inn í liðið með þeim.
Veturinn 2022-2023 héldum við út æfingum í yngri flokkum í eftirtöldum flokkum:
U16/20 piltar
U16/20 stúlkna
U14/12 stúlkur
U10 blandað
U16/20 piltar tóku þátt í helgarmótaröð og deildarkeppni U20 liða. Í helgarmótaröðinni
enduðu þeir í 5. sæti í deildarkeppninni enduðu þeir í 2. sæti í suðvestur deildinni en
úrslitakeppnin náði ekki að fara fram vegna tímaleysis.
U16/20 piltar tóku þátt í bikarkeppninni og enduðu í 6. sæti á bikarmótinu.
U16/20 stúlkur spiluðu sem B lið Aftureldingar í 1.deild kvenna og enduðu í 6. sæti
deildarkeppninnar.
U16/20 stúlkur tóku þátt í bikarkeppninni og enduðu í 5. sæti á bikarmótinu.
U14/U12 stúlkur tóku þátt í Íslandsmóti yngri flokka sem gestalið þar sem 1 stúlka var 15 ára. Stúlkurnar í U12 voru meðlimir í U14 liðinu einnig kepptu þær bæði að Varmá í október og í Neskaupsstað í maí. Liðið endaði í 5. sæti keppninar. U14 náði ekki í lið á bikarmótinu þar sem bikarmótið fór fram á sama tíma og vetrarfrí var í skólum í Mosfellsbæ og var hálft liðið í útlöndum.
Þjálfarar
Sama fyrirkomulag var þetta árið hjá BUR og var starfandi yfirþjálfari , Ana Maria Vidal
Bouza, og er hún með yfirumsjón með öllu yngri flokka starfinu og þar með talið samskipt við þjálfara og æfingaáætlanir allra flokka og samhæfingu og samræmingu milli flokka og yfirumsjón með að skráning iðkenda skili sér og léttir það mikið á sjáflboðaliðastarfi ráðsins.
Atli Fannar Pétursson var þjálfari U16/20 stúlkna, Dorian Poinc þjálfaði U16/20 drengi og Hafsteinn Már Sigurðsson þjálfaði U14/12 stúlkur og U10 blandað.
Íslandsmót yngirflokka að hausti var haldið að Varmá og gisting var í Varmárskóla fyrir liðin utan að landi þar var einnig matur reiddur fram matur fyrir liðin. 46 lið í U12-14-16 tóku þátt í mótinu sem gekk mjög vel í alla staði og fjöldi foreldra ásamt iðkendum BUR og mfl leikmönnum stóðu vaktina í dómgæslu, sjoppu, skóla og uppsetningu valla.
Það ber að geta að þáttaka foreldra í vinnu við mótið var með allra besta móti og það ber að nefna sérstaklega því svona mót er ekki hægt að halda nema að allir leggi hönd á plóg.
Það er gott að nefna það að þetta mót er ein stærsta tekjuöflun BUR þegar mótið lendir hjá okkur.
Afturelding var með tvö lið í U12 og eitt lið í U14 á þessu móti. Við vonumst til að ná að vera með tvö U12 lið og jafnvel tvö U14 lið í seinnihluta Íslandsmótið sem fer fram á
Neskaupsstað í vor.
Æfingarferð til Ikast vorið 2023
Elstu krakkarnir okkar ásamt þeim Atla og Hafsteini þjálfurum fóru í þjálfunarbúðir til Ikast í Danmörku þar sem krakkarnir æfðu með öðrum krökkum frá Danmörku, Atli og Hafstein hins vegar voru að afla sér þekkingar frá þjálfurum danska blaksambandsins.
Krakkarnir voru duglegir að safna sér fyrir ferðinni með sjoppusölu á úrslitakeppni mfl.
einnig tóku þau að sér ruslatínslu í bænum ásamt fleiri fjáröflunum. BUR styrkti svo
þjálfarana til þeirra ferðar þar sem okkur þykir mjög mikilvægt að hafa sem öflugasta
þjálfara innan okkar raða.
Aftureldingarkrakkar í landsliðum
Sunna Rós Sigurjónsdóttir var valin í U17 sem tók þátt í NEVZA í Danmörku í október.
Isabella Rink og Dórothea Huld Aðils Sigurðardóttir voru valdar í U19 sem tók þátt í NEVZA í Finnlandi í október.
Aftureldingarbúðin
Blakdeildin rekur Aftureldingarbúðina en markmiðið með henni er að bjóða Mosfellingum upp á Aftureldingarvörur í íþróttamiðstöðinni. Það er engin gróði af búðinni en hún er þarna og er hugsuð sem þjónusta við félagsmenn Aftureldingar og foreldra iðkendan félagsins.. Einnig hefur búðin tekið þátt og boðið upp á vörur í fjáröflunum Aftureldingar. Á síðasta ári var hægt að selja það sem keypt hafði verið fyrir bæjarhátíðina 2021 sem var felld niður og seldist það vel en um er að ræða fána í hverfalitunum, bæði á flaggstangir sem og á húsþök og litlir fánar fyrir litlar hendur ásamt blöðrum til að búa til fígúrur. Svo það er klárt að þetta er komið til að vera. Nú þarf bara að fá fleiri hugmyndir.
Aðstaðan:
Aðstaða blakdeildarinnar er með því besta sem gerist á landinu hvað blakvellina snertir.
Óskastaðan er að geta haft sal 3 eingöngu undir blakið en á laugardagsmorgnum er salurinn notaður undir íþróttaskóla barnanna og þá færast blakæfingarnar í sal 2.
Blakdeildin er að samnýta sal 3 mjög vel fyrir alla sína hópa til að koma þeim fyrir og gefa úrvalsdeildarliðin eftir æfingatíma á keppnisvelli svo það gangi eftir. Þetta er ákaflega mikilvægt því blak er ekki bara fyrir börn og afreksfólk og samvinnan þar því mjög mikilvæg.
Innan blakdeildar Aftureldingar æfðu samtals 5 fullorðins hópar á síðasta ári fyrir utan meistaraflokkana.
Þar af 4 kvk lið og 1 kk lið.
Á síðasta tímabili æfðu þessi 4 kvk lið í þrem mismunandi hópum, en haustið 2023 breyttist fyrirkomulagið og sameinuðust þessir 3 hópar saman á æfingar þetta tímabilið. Þjálfararnir skiptu svo hópnum upp í 4 lið fyrir Íslandsmótshelgarnar. Kvennaliðin fengu öll ný nöfn á þessu tímabili.
Afturelding Jr. spilaði í 2. deild Íslandsmótsins og enduðu þar í 6. sæti og spila því aftur í sömu deild að ári. Hin þrjú kvk liðin spiluðu öll í 4. deild Íslandsmótsins. Afturelding DNA endaði í 3. sæti og vann sig þar af leiðandi upp í 3. deild. Afturelding Kaleo endaði í 10. sæti og halda sér í 4. deild. Afturelding GDRN endaði í 12. sæti og féll niður um deild og spila því í 5. deild að ári.
Karlaliðið, Steve Öxl, tók þátt á sínu öðru Íslandsmóti í 3. deild karla og enduðu þar í neðsta sæti.
Meistaraflokksráð deildarinnar hefur lagt mikið upp úr umgjörð á leikjum meistaraflokkanna okkar frá upphafi. Útbúnir hafa verið fánar af öllum leikmönnum sem hanga uppi á leikjum liðanna t.d. og hafa vakið athygli gestaliða í öðrum íþróttagreinum t.d. og reynt er að standa sem allra best að allri umgjörð í kringum liðin okkar og heimaleikina og reynt að uppfylla allar þær skyldur sem sambandið setur.
Strandblaksvöllurinn á Stekkjarflöt er í umsjón blakdeildarinnar. Við höfum verið í góðu sambandi við bæinn varðandi völlinn. Það sem gerir völlinn hins vegar ekki svo aðlaðandi til að dvelja á er að það vantar salernisaðstöðu á svæðið sem vonandi kemur einn daginn.
.
Blakfólk deildarinnar:
Blakkona Aftureldingar 2023 var valin Thelma Dögg Grétarsdóttir og Blakmaður Aftureldingar var Atli Fannar Pétursson og voru þau bæði vel að þessum tilnefningum komin.
Landsliðin:
A landslið kvenna unnu Evrópumót smáþjóða og átti Afturelding 5 leikmenn í liðinu auk landsliðsþálfara liðsins. Leikmennirnir: Rut Ragnarsdóttir,Tinna Rut Þórarinsdóttir, Thelma Dögg Grétarsdóttir, Daníela Grétarsdóttir og Valdís Unnur Einarsdóttir voru allar valdar í A -landsliðið og koma þær allar frá blakdeild Aftuerldingar. Rut gat því miður ekki gefið kost á sér í þetta verkefni vegna anna í skóla. Borja Gonzalez Vincente var þjálfari liðsins og fararstjóri var okkar maður Einar Friðgeir Björnsson.
Liðið vann til gullverðlauna á mótinu og áttum við okkar fulltrúa í draumaliði mótsins þar sem Tinna Rut, Valdís Unnur og Thelma Dögg voru allar valdar auk þess sem Thelma Dögg var valin MVP eða Most Valuable Player mótsins.
Listi yfir Aftureldingarblakara sem valdir voru í A-landslið 2023.
Valdís Unnur Einarsd | A landslið kvk | |||||
Rut Ragnarsd | A landslið kvk | |||||
Daníela Grétarsd | A landslið kvk | |||||
Tinna Rut Þórarinsdóttir | A landslið kvk | |||||
Thelma D0gg Grétarsdóttir | A landslið kvk | |||||
Hafsteinn Már Sigurðsson | A landslið kk | |||||
Atli Fannar Pétursson | A landslið kk | |||||
Þjálfarar leiktíðina 2022-2023:
Þjálfari meistaraflokka karla og kvenna : Borja Gonzales Vincente
Styrktarþjálfari meistaraflokkanna: Ana Maria Vidal Bouza
Þjálfarar neðri deilda félagsins eru leikmenn meistaraflokks karla:
Matias Ocompo,Bartek, Kinga og Atli Fannar Pétursson.
Dómaramál
Það er ljóst að Blakdeildin þarf að reyna að fá fleiri dómara á vegum félagsins ætli deildin að halda úti því öfluga starfi sem er þar núna. Samkvæmt reglum BLI þá þarf félagið að hafa amk 2 starfandi dómara tefli það fram liði í efstu deild Íslandsmótsins auk neðri deilda. Betur má ef duga skal í þeim efnum.
Þakkir:
Þeir sem gefa kost á sér í ráð og stjórn blakdeildar fá sérstakar þakkir. Oft er þetta vanþakklátt starf en öll erum við í þessu vegna áhuga okkar á íþróttinni eða vegna þess að barnið okkar stundar blakið og öll viljum við að starfið haldi áfram og allir eru alltaf að reyna að gera sitt besta. Við megum ekki missa sjónar á því.
Ég vil minna okkur öll á það að við skiptum öll máli hvort fyrir annað, allar deildir, allir hópar, allur aldur. Við þurfum öll á hvort öðru að halda því það hefur verið aðalsmerki Blakdeildarinnar í gegnum árin að okkur hefur auðnast að halda samvinnu þvert á hópa og aldur og flestir hafa verið boðnir og búnir til að aðstoða þegar á þarf að halda og vonandi helst það þannig áfram.
Fyrir fámenna deild skiptir þetta miklu því hvert verkefni er stórt og krefst ákveðins fjölda svo framkæmanlegt sé. Við skulum þakka fyrir þessa samvinnu því hún er ekki sjálfgefin.
Mjög mikilvægt er að foreldrar taki þátt í starfinu þó í litlum mæli sé. Til að byggja upp öflugt barna- og unglingastarf þá þurfa foreldrar að vera tilbúnir að aðstoða og vera með og t.d. taka að sér ákveðið hlutverk innan flokksins. Margar hendur vinna létt verk er svo sannarlega satt og rétt í þessu tilfelli.
Ég vil þakka sérstaklega öllum stjórnarmeðlimum í ráðum deildarinnar fyrir þeirra mikla og óeigingjarna starf á liðnu starfsári og starfsárum.
Þeim sem ætla að hætta vil ég færa sérstakar þakkir fyrir þeirra óeigingjarna starf fyrir deildina.
Í ráðum blakdeildar 2022-2023 sátu:
Guðrún K Einarsdóttir formaður.
Guðbrandur Pálsson formaður mfl ráðs
Einar Friðgeir Björnsson gjaldkeri mfl kvenna
Þröstur Óskarsson mfl ráði
Sigurgeir Hallgrímsson formaður BUR
Arnar Þór Hafþórsson gjaldkeri BUR
Ólöf Birna Ólafsdóttir
Pimpernel Werwijnen
Þórhallur Sölvi Barðason.
Neðri deildar ráðið skipa:
Þórdís Ólafsdóttir
Margrét Ragnarsdóttir
Erla Gunnarsdóttir
Vallý Sævarsdóttir
Klara Bjarnadóttir.
F.H. starfsráða innan Blakdeildar Aftureldingar
Guðrún K Einarsdóttir
Formaður