Skýrsla meistaraflokksráðs karla

Undirbúningstímabilið var gott þetta árið og liðið vann sína deild í Fotbolti.net-mótinu. Farið var í æfingaferð til Campoamor á Spáni en þá hafði ekki verið farið í æfingaferð tvo tímabil vegna kórónuveirufaraldursins. Margir ungir leikmenn úr 2. og 3. flokki fengu tækifæri og stigu sín fyrstu skref með flokknum á árinu. Þjálfarar og forsvarsmenn flokksins leggja mikla áherslu á þetta eins og undanfarin ár enda mikilvæg reynsla sem ungir og efnilegir leikmenn fá undir beltið með þessu.

Sumarið fór hægt af stað og úrslitin stóðust ekki væntingar. Aðeins söfnuðust 3 stig eftir fyrstu sex umferðirnar. Um mitt sumar komst liðið á flug og var með bestu liðum deildarinnar. Liðið var á miklu flugi og vann sína leiki sannfærandi. Undir lok tímabilsins fataðist liðinu svo flugið og niðurstaðan var 8. sæti. Þrátt fyrir það var sett stiga- og markamet í deildinni. Liðið missti mikilvæga leikmenn fyrir lokaumferðirnar og má m.a. rekja skýringar til þess. Liðið komst í 16 liða úrslit Mjólkurbikarsins þar sem það féll úr leik í framlengingu.

Á næsta tímabili er breytt leikjafyrirkomulag í deildinni þar sem liðin í 2-5 sæti spila um laust sæti í efstudeild. Liðið ætlar sér að enda í einu af efstu 5 sætunum. Áhersla verður lögð á að keppnishópurinn verði tilbúinn fyrr en venjulega og koma að mestu í veg fyrir að leikmenn fari áður en tímabilinu er lokið.

Áfram Afturelding!

Gísli Elvar Halldórssson

Formaður meistaraflokkráðs karla