Skýrsla formanns fyrir árið 2023:
Aðalfundur Aftureldingar 18. Apríl í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ.
Aðalstjórn Aftureldingar 2023
Birna Kristín Jónsdóttir, fomaður
Hrafn Ingvarsson, varaformaður
Sigurður Rúnar Magnússon, gjaldkeri
Geirarður Þórir Long, ritari
Inga Hallsteinsdó ttir, meðstjórnandi
Reynir Ingi Árnsson, meðstjórnandi
Hildur Pála Gunnarsdóttir, meðstjórnandi
Árið 2023 var að mörgu leiti mjög gott hjá okkur. Vissulega stendur uppúr bikarmeistaratitillinn hjá körlunum í handboltanum sem og margir einstaklingssigrar, en uppskeran er alltaf skemmtilegasta stundin í lífi hvers íþróttamanns og eins og alltaf vorum við með fullt af frammúrskarandi iðkendum sem slóust um titilinn íþróttamaður og íþróttakona Aftureldingar.
Íþróttamaður ársins var valinn Þorsteinn Leó Gunnarsson handknattleiksmaður.
Íþróttakona Aftureldingar var valin Katrín Davíðsdóttir handknattleikskona.
Mér telst til að 45 af okkar yngri iðkendum hafi komið við sögu í landsliðsverkefnum á árinu og það er ekkert smá flottur árangur. Það segir mér að framtíðin okkar er mjög björt.
Hefð er fyrir því á uppskeruhátíð félagsins að velja vinnuþjark félagsins sem kemur úr röðum sjálfboðaliða. Að þessu sinni varð fyrir valinu Raggi Óla, Raggi á stóran þátt í því að skrásetja sögu félagsins með myndatöku á viðburðum sem er ótrúlega verðmætt fyrir okkur og söguna.
Þjálfarar ársins voru þeir Magnús Már Einarsson og Enes Cocic, þjálfarar meistaraflokks karla í knattspyrnu.
Afrek ársins var að sjálfsögðu framlag Gunnar Magnússonar og hans teymis til bikarmeistaratitilsins í handbolta.
Rekstur og utanumhald íþróttafélaga er krefjandi verkefni og verður alltaf þyngra og þyngra. Kostnaður eykst samhliða metnaðarfullu starfi og sífellt erfiðara verður að sækja styrki og afla fjár. Velta félagsins hefur aukist milli ára um 45% og má hrósa sjálfboðaliðunum okkar sérstaklega fyrir það. Fjáröflunartekjur eru stærsti tekjupósturinn okkar eða um 40% af tekjum félagsins en æfingagjöld skila um 35% og rekstarstyrkur Mosfellsbæjar, sem við erum mjög þakklát fyrir, er um 22% af okkar tekjum og rúmlega 3% kemur frá íþróttahreyfingunni, að mestu tekjur af Lottó.
Það eru á hverju ári einhver deild eða ráð sem lendir í fjárhagslegum hremmingum og við reynum eftir bestu getu að aðstoða þar um en það verður að segjast að við höfum verið ansi þunnskipuð á skrifstofunni og þetta er mikið álag sem þar hefur verið undanfarin ár sem sýnir sig í veltu starfsmanna hjá okkur. Það eru þó teikn á lofti en við höfum fengið fjárveitingu frá Mosfellsbæ til að manna eina stöðu til viðbótar út þetta ár og bind ég miklar vonir við að það stöðugildi festi sig í sessi og jafnvel eitthvað fleiri, en rekstrarsamningur okkar við Mosfellsbæ rennur út á þessu ári og því tækifær til að opna samtalið þar um. Það er allavega alveg ljóst að ef við ætlum ekki að brenna upp framkvæmdastjórum áfram á tveggja ára fresti þarf eitthvað mikið að breytast.
Fjárhagslegt svigrúm okkar er ekki mikið en við leggjum mikla áherslu á traustan rekstur án þess þó að það bitni á metnaðarfullu íþróttastarfi þar sem við viljum vera í fremstu röð og standast samanburð við önnur félög bæði hvað varðar aðstöðu og utanumhald. Mig langar að hrósa ykkur kæru sjálfboðaliðar sem eruð að sækja styrki og hugsa í lausnum til þess að reksturinn hjá okkur megi dafna. Starf sjálfboðaliðans er gríðarlega óeigingjarnt og vissulega gefandi þegar uppskeran sést, en oft er leiðin erfið.
Iðkendum í Aftureldingu hefur fjölgað jafnt og þétt undanfarin ár en á síðasta ári varð smá samdráttur um 2,3% sem er fækkun um 41 iðkanda en iðkendur um áramót voru í heildina 2.228, en á aldrinum 4 – 18 ára voru þeir 1.736 talsins. Ef við hins vegar horfum 9 ár aftur í tímann hefur þessum iðkendahóp 4 – 18 ára fjölgað um 535 einstaklinga. Það segir sig sjálft að því fleiri sem iðkendurnir eru því meiri aðstöðu þar fyrir allan þennan fjölda af því að ekki langar okkur að setja takmarkanir. Í stækkandi bæjarfélagi eins og Mosfellsbær er þá þurfum við stöðugt að vera að bæta okkur og ef við gefum okkur að allir þessir iðkendur eigi foreldra í bænum þá er þetta ansi stór hluti bæjarbúa sem Afturelding er að þjónusta.
Okkur í aðalstjórn eru aðstöðumálin endalaust hugleikin og þetta er vissulega verkefni sem aldrei klárast og allir þurfa að vera stöðugt tilbúnir að endurmeta.
• Núna standa yfir framkvæmdir við að breyta gamla aðalvellinum okkar í gervigrasvöll og mun 200 m frjálsíþróttabraut koma nyrðst á svæðinu ásamt því að horft er til þess að stúkubygging við aðalvöllinn reki lestina í þeim framkvæmdum, en rýmið fyrir stúkuna er hugsað með í hönnun svæðisins.
• Aðstaða til styrktarþjálfunar er loksins orðin til mikillar fyrirmyndar hjá okkur og getum við núna boðið öllum deildum uppá aðstöðu til styrktarþjálfunar.
• Þjónustubyggingin sem frestaðist fyrir um tveimur árum síðan er ekki komin í hönnun en þar er aftur búið að þarfagreina og bíðum við spennt eftir næstu skrefum en alveg ljóst að þörfin er mikil og tíminn líður hratt.
Við fögnum því að hreyfing er á aðstöðumálunum okkar enda er það margsannað mál að því betri aðstöðu sem hægt er að bjóða uppá, því betri árangri er hægt að ná og iðkendur haldast lengur í íþróttum og það er gríðarlega mikilvægt það forvarnarstarf sem við vinnum í Aftureldingu og við megum vera duglegri að hrósa okkur fyrir það. Því framar sem meistaraflokkarnir okkar standa því sterkari og meira áberandi eru fyrirmyndirnar fyrir unga fólkið okkar og eitt af lykilatriðum í góðu gengi meistaraflokka er góð aðstaða. Það er því gríðarlega mikilvægt að við förum að fá tímalínu á framkvæmdir þannig að við förum að sjá fyrir horn og getum farið að láta okkur hlakka til framtíðaraðstöðu.
Kröfur til íþróttafélaga eru alltaf að verða meiri og meiri og samhliða því er alltaf að verða erfiðara að fá fólk til að gefa tímann sinn í sjálfboðaliðastörf. Við þurfum að leggjast öll á eitt í Aftureldingu og Mosfellsbæ að finna leiðir til að leiðrétta þessa þróun. Ég er ekki með töfrasvarið en ég get fullyrt það að margar hendur vinna létt verk og ef ég tala fyrir mig að ég er búin að kynnast svo mikið af frábæru fólki sem ég hefði ekki endilega kynnst nema í gegnum félagið.
Að lokum þá vil ég þakka fyrir mig, þetta hafa verið mjög lærdómsrík níu ár sem ég hef verið innan aðalstjórnar og formaður í sex af þeim. Ég hef fengið tækifæri til að vinna með mikið af flottu fólki, enginn er óumdeildur en ég vil trúa því að ég geti hoft stolt til baka enda hef ég verið einstaklega lánsöm með fólk með mér í stjórn. Það er þó vissulega mjög margt sem ég hefði viljað sjá komið lengra.
Takk fyrir traustið og takk fyrir að vera hreinskilin. Ég hef alltaf verið til í samtalið við alla og það þurfa ekki allir að vera sammála en við verðum að geta tekist á af virðingu. Berum virðingu hvert fyrir öðru óhað deildum og ráðum. Ég held að algjört grunngildi í okkar starfi verði að vera heiðarleiki og stundum þurfum við öll að geta viðurkennt að við höfum ekki alltaf rétt fyrir okkur, það er nefnilega þannig að ekkert okkar er stærra en félagið og það þarf alltaf að vera leiðarljósið – Hvað er best fyrir Aftureldingu!
Saman erum við Afturelding og erum öll jafn mikilvæg, við verðum aldrei sterkari en veikasti hlekkurinn. Ég hvet ykkur til að vera dugleg að mæta og hvetja öll liðin okkar áfram. Úrslitakeppni framundan bæði í blaki og handbolta og svo er fótboltinn að byrja að rúlla.
Áfram Afturelding
Birna Kristín Jónsdóttir, Formaður Aftureldingar.