Skýrsla meistaraflokks kvenna

Meistaraflokkur kvenna

 

Meistaraflokkur kvenna stóð uppi sem deildarmeistari í Grill 66 deildinni tímabilið 2022-2023 og hefur því spilað í Olís deildinni í vetur, ásamt sjö öðrum liðum og voru spilaðar þrjár umferðir.  Að lokinni deildarkeppninni voru stelpurnar með 8 stig í næst neðsta sæti og því er framundan umspil um að halda sæti í efstu deild þegar þetta er skrifað.  Stelpurnar hafa átt frekar risjótt tímabil, þar sem framistaðan hefur verið allt frá því að vera slök í sumum leikjum yfir í það að þær fari algerlega á kostum í öðrum.  Í bikarkeppninni laut liðið í lægra haldi fyrir Stjörnunni í fyrstu umferð í október og komst því ekki lengra, en Stjarnan endaði á að spila til úrslita á móti Val.

Þjálfarateymið hefur verið skipað áfram þeim Guðmundi Helga Pálssyni og Einari Bragasyni og þá hefur Yrja Dögg Kristjánsdóttir séð um styrktarþjálfun og þeir Guðmundur Karl Úlfarsson sjúkranuddari og Unnar Arnarsson sjúkraþjálfaranemi skipst á að aðstoða liðið í leikjum og sinna leikmönnum vegna meiðsla.

Leikmannahópurinn tók breytingum í haust og komu þær Saga Sif Gísladóttir markvörður úr Val, Hildur Lilja Jónsdóttir úr KA/Þór og Stefanía Ósk Engilbertsdóttir og Fanney Ösp Finnsdóttir úr ÍR. Þá komu þær Sigríður Björg Þorsteinsdóttir og Íris Kristín Smith inn í liðið eftir áramót.  Mina Mandic hélt utan og fór að spila í Portúgal og Dagný Lára og Þórhildur Vala hættu.  Sylvía Björt Blöndal náði aðeins að spila um helming leikja liðsins í vetur þar sem hún hefur stundað nám í Kaupmannahöfn og verið stopult á landinu í vetur og þá er Telma Rut Frímanndóttir einnig aðeins með þegar kostur er á milli vinnutarna í fluginu.  Nokkrar efnilegar stelpur eru í þriðja flokki og hafa æft og sumar spilað með liðinu í vetur og vonandi halda þær áfram að sýna framfarir og taka stefnuna á fast sæti í meistaraflokki innan skamms tíma.

Að loknu góðu tímabili 2022-2023 í Grill 66 deildinni fékk Afturelding nokkrar viðurkenningar og var Sylvía Björt Blöndal valin besti sóknarmaður Grill 66 deildar kvenna, Susan Barinas besti varnarmaðurinn og Guðmundur Helgi besti þjálfarinn.

Á lokahófi meistaraflokkanna vorið 2023 voru einnig veittar viðurkenningar og voru þær eftirfarandi, Katrín Helga Davíðsdóttir mikilvægasti leikmaðurinn, Sylvía Björt besti leikmaðurinn, Anna Katrín Bjarkadóttir sú efnilegasta og Susan Barinas besti liðsmaðurinn.  Þá var Katrín Helga kjörin íþróttakona Aftureldingar árið 2023.

Í vetur hefur Hildur Lilja Jónsdóttir staðið sig vel og skoraði 100 mörk í deildinni auk þess að vera valin í hóp U-20 landsliðsins.  Næst markahæstar eru síðan þær Ragnhildur Hjartardóttir, Katrín Helga og Susan sem allar hafa skorað yfir 60 mörk í deildinni.

Meistaraflokksráðið ræður við fjölgun og tökum við vel á móti fólki sem vill leggja sitt af mörkum, í litlum sem stórum verkefnum.  Erla Dögg hefur verið formaður, Margrét Vilhjálmsdóttir gjaldkeri og þeir Davíð Svansson og Bjarki Sigurðsson meðstjórnendur.

Það er mikilvægt að halda uppi góðri umgjörð um stelpurnar og þær finni fyrir stuðningi í verki, það er hvatning til að standa sig vel.  Við höldum ótrauð áfram.

Áfram Afturelding.

 

Erla Dögg Ragnarsdóttir

Formaður meistaraflokksráðs kvenna í handbolta